Mótorhjóla & snjósleðaíþróttasamband Íslands

Fréttir

Íslenskt landslið sent á Motocross of Nations 2017

15.08.2017 08:35 Íslenskt landslið sent á Motocross of Nations 2017

Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands hefur valið lið til þátttöku í heimsmeistarakeppni þjóðanna (MXofN) í motocrossi sem fer fram 30. september og 1. október í Matterley Basin, Winchester, Englandi.

MXON keppnin er haldin árlega af alþjóða mótorhjólasambandinu FIM og færist keppnin á milli landa ár hvert. Hver þjóð sem tekur þátt teflir fram 3 manna landsliði í þessari stærstu keppni ársins í Motocrossi.

MSÍ hefur valið eftirfarandi keppendur í landsliðið 2017:

Ingvi Björn Birgisson sem er efstur til stiga í opnum flokki og MX2 flokki í Íslandsmeistaramótinu 2017 í motocrossi. Ingvi Björn mun keppa í MXGP flokki með keppnisnúmerið 106.

Andri Snær Guðmundsson sem er búsettur í Noregi og æfir og keppir með norska unglingalandsliðinu í motocrossi en keppir nú fyrir hönd Íslands í annað skipti. Andri Snær mun keppi í MX2 flokki með keppnisnúmerið 107.

Eyþór Reynisson fyrrverandi Íslandsmeistari í motocrossi sem verið hefur við keppni og æfingar í Belgíu, Englandi og víðar í Evrópu að undanförnu. Eyþór mun keppa í MX Open flokki með keppnisnúmerið 108.

Einar Sigurðsson er varamaður liðsins en hann er í öðru sæti til stiga í opnum flokki og MX2 flokki í Íslandsmeistaramótinu 2017.

Liðsstjóri liðsins verður Karl Gunnlaugsson en landslið MSÍ mun einnig njóta liðsinnis Bretans Ed Bradley sem hefur mikla reynslu í þjálfun ökumanna og er gamalreyndur keppnismaður.         

VAMO keppnisliðið frá Belgíu sjá um allan aðbúnað liðsins um keppnishelgina og munu leggja til sérútbúinn vöruflutningabíl, tjald og verkfæri líkt og þeir gerðu fyrir landsliðið á Ítalíu í fyrra.

Heimsmeistarakeppni þjóðanna „Motocross of Nations“ fer fram að þessu sinni á hinni þekktu Matterley Basin braut í Englandi en keppnin er haldin í mismunandi landi ár hvert og hefur verið haldin allt frá árinu 1947 þegar keppt var í Hollandi.

MSÍ hefur sent landslið til keppni í heimsmeistaramóti þjóðanna frá árinu 2007 þegar keppt var á Budds Creek brautinni í Maryland í Bandaríkjunum.

f.h. stjórnar MSÍ

Hrafnkell Sigtryggsson, formaður.

 

 

Til baka