Mótmæli vegna tillögu um afnám undanþágu frá vörugjöldum á keppnis- og æfingahjól
Í 30 ár hefur verið barist fyrir að fá mótorhjóla íþróttir, þar á meðal motocross, viðurkenndar sem íþrótt — ekki sem einhvers konar lúxus áhugamál.
Fram til ársins 2000 voru 70% vörugjöld á torfæruhjólum, en það fékkst lækkað í 30% sama ár. Sú breyting var mikil lyftistöng fyrir íþróttina. Frá árinu 2000 og fram til 2008 varð gríðarleg aukning í motocross, og má segja að það hafi verið gullár íþróttarinnar. Eins og í mörgum öðrum íþróttagreinum hafði bankahrunið árið 2008 þó veruleg áhrif. Verð á torfæruhjólum tvöfaldaðist, sem olli mikilli lægð í greininni í nokkur ár.
Lagabreytingar og áfangar
Í kjölfar hrunsins hóf starfshópur innan Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambands Íslands (MSÍ) vinnu við að fá afnumin 30% vörugjöldin af keppnis- og æfingatækjum í motocross, enduro og kappakstri en halda eftir 24,5% virðisaukaskatti.
Árið 2010 tóku gildi breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem innleiddur var nýr liður í 4. gr. laganna. Sú breyting opnaði á möguleika til undanþágu frá vörugjaldi vegna sérstakra tækja til íþróttaiðkunar. Þetta voru gríðarleg tímamót fyrir íþróttastarfið.
Eftir lagabreytinguna hófst tólf ára tímabil þar sem unnið var að útfærslu á framkvæmd undanþágunnar milli MSÍ og Skattsins. Það var ekki fyrr en á haustmánuðum 2021 og fram á vorið 2022 sem loks náðist lending í málinu, og fyrsta keppnistækið var skráð í gegnum Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands.
Frá árinu 2022 hafa um 160 keppnishjól verið afgreidd án vörugjalda, sem hefur veitt íþróttinni mikla innspýtingu og eflt starf íþróttafélaga um allt land.
Tillaga ráðuneytisins
Í minnisblaði dagsettu 17. október 2025 frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, mál nr. FJR25060076, kemur fram tillaga í kafla 4.2 um afnám sérstakrar undanþágu fyrir sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól.
Í kaflanum segir meðal annars:
„Jafnræðissjónarmið mæla með því að þessi tiltekna tómstunda- og íþróttaiðja njóti ekki sérstakra skattalegra ívilnana umfram aðrar. Breytingin er því mikilvægt skref og liður í átt að samræmdara, réttlátara og umhverfisvænna skattkerfi þegar kemur að álagningu vörugjalda.“ Það er erfitt að sjá hvert jafnræðis- eða réttlætissjónarmiðið er í því að afnema þessa undanþágu eða hvernig það stuðlar að umhverfisvænna skattkerfi að leggja auknar álögur á íþrótt sem er viðurkennd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
Raunin er sú að um 70% iðkenda motocross eru börn og unglingar. Íþróttin er frábær forvörn fyrir börn og ungmenni, eflir sjálfsaga, samstöðu og hreyfingu — og dregur úr áhættuhegðun. Að leggja ný vörugjöld á keppnistæki í þessari íþrótt myndi ekki stuðla að jafnrétti, heldur veikja stoðir íþróttastarfs sem byggir á sjálfboðavinnu og samfélagslegri ábyrgð.
Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands mótmælir því eindregið áformum um að leggja aftur vörugjöld á torfæruhjól og keppnistæki í mótorhjólaíþróttum. Slíkar álögur eru í raun aðför að brothættu íþróttastarfi og ganga gegn þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa lýst um að efla íþróttir, forvarnir og heilsueflingu barna og ungmenna.
Í samvinnu við ÍSÍ hefur þessum áformum verið harðlega mótmælt.
30.10 2025 12:00 | MSÍ








